Trausti og gítarinn

Trausti Thorberg Óskarsson, er fæddur í Bröttugötu 3, Grjótaþorpi þann 19. nóv. 1927. Hann elst síðan upp á æskuheimili sínu að Bræðraborgarstíg 16. Hann stundaði hefðbundið nám í Barnaskóla Miðbæjar við Tjörnina í Reykjavík. Hann fer snemma að vinna í bakaríi foreldra sinna að Laugavegi 5. Hann fer svo í Iðnskólann sem bakaranemi, þetta var árið 1943. Á þessum árum allt frá 1940 hafið Trausti fengið mikinn áhuga fyrir gítar og hafði m.a. sótt nám hjá Sigurði Briem. En þá hafði Ísland verið hernumið af Bretum og með hernum komu hljóðfæraleikarar, sem léku danstónlist og þar sá Trausti og heyrði í fyrsta skipti leikið á gítar í hljómsveit. Eftir þetta komst ekkert annað að hjá Trausta nema rytma-gítar og fór honum mjög vel fram á hljóðfærið.

Síðan tóku Ameríkanar við og þá komu með þeim stórar hljómsveitir (Big-band) og í þessum hljómsveitum var alltaf gítar. Á þessum árum var Trausti þegar farinn að leika með ýmsum hljóðfæraleikurum, aðallega harmonikkuleikurum, enda mikil eftirspurn eftir liðlegum rytma-gítarleik þar sem á þessum árum var mikið dansað. Þar kom að Trausti komst að sem lærlingur í hljómsveit Þóris Jónssonar á Hótel Borg til að öðlast færni í að leika með blásurum sem þýddi að hann þurfti að leika í tóntegundum, sem hann var alveg ókunnur. Hann naut þá í smá tíma kennslu gítarleikara sem var hér á vegum hersins og hér Jimmy Webster, hann kom Trausta yfir þá erfiðleika sem fylgja því að spila með blásturshljóðfæraleikurum. Trausti hóf að leika með K. K. sextett í sept. 1947. Þá kom í ljós að nótnalestrar kunnátta var í algjöru lágmarki, þar sem hann þurfti að leika raddir á móti saxafón og trompet. Þetta vafðist mikið fyrir Trausta og varð hann að mestu leiti að læra sínar raddir utanað. Þess má líka geta að allan sinn feril sem gítarleikari þessara ára vann Trausti sem rakari á daginn.

Þá kom að því að hann fer til Danmerkur 1948 með sína heitt elskuðu Dóru, sem fór þá á húsmæðraskóla, en Trausti, að vinna á rakarastofu í Kaupmannahöfn. Á þessum tíma í Kaupmannahöfn kynntist hann mörgum hljóðfæraleikurum, t. d. Helga Jacobsen, frábærum gítarleikara og Jørn Grauengåard. Trausti sótti tíma hjá honum þetta sumar og þegar heim kom til Íslands 1949 lék Trausti með allflestum hljóðfæraleikurum sem voru á markaðnum á þessum tíma, þó einna mest með Carli Billich í Góðtemplarahúsinu og á yfir 100 sýningum á "Deleríum Búbónis", leikriti eftir þá bræður Jón Múla of Jónas Árnason.

Það var árið 1946 í nóvember að hingað kom sænskur gítarleikari á klassíska sviðinu, hann lék á tónleikum í Tjarnarbíó og þar kynntist Trausti fyrst í návígi því sem hans hugur hafði leitað, að spila á gítar sem sóló hljóðfæri með gjörólíkum að ferðum, þetta var einskonar bylting fyrir Trausta. Það er svo ðð þegar Eyþór Þorláksson kemur til Íslands haustið 1959, það er ekkert með það að með okkur tekst mikil og einlæg vinátta sem hefur staðið allt til þessa dags. Hann kom mér inn í heim klassíska gítarsins og hóf strax að leiðbeina mér, lét mig fá nótur, lánaði mér plötur; sem sagt kom mér varanlega á sporið. Eftir þetta lékum við saman ásamt eiginkonu hans Sigurbjörgu Sveinsdóttur (Didda Sveins) sem söng með tríói í Þjóðleikhúskjallaranum og síðar á Röðli.

Þá kom að því að hann hvatti mig eindregið til að fara í tónlistarskólann. Ég var þá um sextugt, orðinn gráhærður og taldi það fráleitt að ég gæti farið í svo strangt nám, en Eyþór hvatti mig mjög til þess. Meiningin var fyrst og fremst sú að öðlast haldgóða þekkingu á tónlistarnámi og betri þekkingu á gítarbókmenntum og var ef til vill efni í gítarkennara. Það var ekkert annað en það að ég stundaði þetta nám af einlægum áhuga og lauk námi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar með tónleikum 21. apríl 1985 og hafði þá með náminu hafið kennslu við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og í framhaldi af því einnig við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í mörg ár. Án stuðnings Eyþórs hefði ég aldrei komist í gegnum þetta. Hann var kröfuharður kennari, en sanngjarn og er ég honum afar þakklátur fyrir allt það starf.

Nú er ég frjáls til að gera það sem mig hefur alltaf langað til að gera á gítarinn, en nú er það eingöngu fyrir sjálfan mig, mér til ánægju að skrifa fyrir hljóðfærið og heyra þessa ljúfu tóna sem hægt er að fá úr þessu yndislega hljóðfæri.

Á þeim blöðum sem hér fara á eftir, getur að líta íslensk lög, sem á að leika á gítar sem einleiksverk. Tónskáld vor hafa samið þessi fallegu lög við úrvals ljóð, sem hafa orðið vinsæl með þjóðinni. Mörg laganna geta einnig hljómað sjálfstæð án ljóðs, enda oft leikin þannig t. d. á fiðlu, cello eða píanó. Mér fannst kominn tími til að gítarinn væri þar á meðal. Til þess að þetta megi gerast þarf að leika þetta á svokallaðan klassískan gítar og þá er vandinn sá, að láta laglínuna njóta sín og krefst það nokkrar leikni á hljóðfærið ef vel á að vera.

Ég hef sett nokkra fingrasetningu við lögin, sem auðvitað má hafa á annan hátt, enda er hún mjög persónu bundin. Eins og áður segir eru flest lögin samin fyrir einsöng eða sem kórsöng og ber að hafa ljóðin í huga þegar leikið er svo að laglínan megi njóta sín sem best.

Lög þessi eru skrifuð á mörgum árum og hafa safnast saman í það sem sjá má í þessari bók. Góðvinur minn, Eyþór Þorláksson til margra ára kennari í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, hefur verið mér innan handar með ýmsar ráðleggingar að viðbættu því að hafa tölvusett þetta allt fyrir mig og er ég honum mjög þakklátur fyrir það.

Eiginkonu minni, Dóru Sigfúsdóttur er ég mjög þakklátur fyrir dygga aðstoð við ljóð og annað sem tengist þessu tómstundagamni mínu og ekki síst þolinmæði. Henni tileinka ég þesssa bók.

Skrifað í september 2008. Trausti Thorberg


Trausti Thorberg

33 íslensk sönglög

33 íslensk sönglög er bók með útsetningum fyrir gítar sólo eftir Trausta Thorberg. Bókin fæst í Tónastöðinni og inniheldur eftirfarandi lög:

 1. Á vegamótum. Eyþór Stefánsson / Helgi Konráðsson
 2. Augun. Skúli Halldórsson / Jónas Hallgrímsson
 3. Ágústnótt. Oddgeir Kristjánsson / Árni úr Eyjum
 4. Barmahlíð. Skúli Halldórsson / Jón Thoroddsen
 5. Blikandi haf. Freymóður Jóhannsson / Freymóður Jóhannsson
 6. Dísa. Þórarinn Guðmundsson/Gestur
 7. Draumljóð. Skúli Halldórsson / Theodóra Thoroddsen
 8. Ég leitaði blárra blóma. Gylfi Þ. Gíslason /Tómas Guðmundsson
 9. Fagurt er á sumrin. Þórarinn Guðmundsson / Kristjón Jónsson
 10. Glugginn minn. Skúli Halldórsson / Theodóra Thoroddsen
 11. Hríslan og lækurinn. Ingi T. Lárusson / Páll Ólafsson
 12. Í grænum mó. Sigfús Halldórsson / Gestur Guðfinnsson
 13. Kirkjuhvoll. Árni Thorsteinsson / Guðmundur Guðmundsson
 14. Kveðja. Ísólfur Pálsson / Steingrímur Thorsteinsson
 15. Kvöldkyrrð. Jónatan Ólafsson / Númi Þorbergsson
 16. Kvölds í blíða blænum. Sigfús Einarsson / Birgitta Tómasdóttir
 17. Lindin. Eyþór Stefánsson / Hulda
 18. Litla skáld. Ingi T.Lárusson / Þorsteinn Erlingsson
 19. Lífið hún sá í ljóma þeim. Ingi T. Lárusson / Þorsteinn Erlingsson
 20. Ljósbrá. Eiríkur Bjarnason / Ágúst Böðvarsson
 21. Minning. Þórarinn Guðmundsson / Jakob Jóh. Smári
 22. Minning. Markús Kristjánsson / Davíð Stefánsson
 23. Nú andar suðrið. Ingi T. Lárusson / Jónas Hallgrímsson
 24. Ó, blessuð vertu sumarsól. Ingi T. Lárusson / Páll Ólafsson
 25. Smaladrengurinn. Skúli Halldórsson / Steingrímur Thorsteinsson
 26. Smalastúlkan. Skúli Halldórsson / Jón Thoroddsen
 27. Sólskríkjan. Jón Laxdal / Þorsteinn Erlingsson
 28. Sofnar lóa. Sigfús Einarsson / Þorsteinn Erlingsson
 29. Við eigum samleið. Sigfús Halldórsson / Tómas Guðmundsson
 30. Vöggukvæði. Emil Thoroddsen / Jón Thoroddsen
 31. Þín hvíta mynd. Sigfús Halldórsson / Tómas Guðmundsson
 32. Þú eina hjartans yndið mitt. Sigvaldi S. Kaldalóns / Guðmundur Geirdal
 33. Þú ert. Þórarinn Guðmundsson / Gestur
Trausti Thorberg & Eythor Thorlaksson

Trausti Thorberg

Hvíthærður eldri maður, hnarreystur og gengur hratt. Það er yfir honum framandlegur blær, þar sem hann gengur um götur Reykjavíkur. Og þó er hann sonur þessarar borgar, ef til vill umfram flesta aðra. Ungur að árum lærði hann rakaraiðn á rakarastofu Sigurðar Ólafssonar í Eimskipafélagshúsinu. Þessi stofa var ekki aðeins miðdepill borgarinnar; hún var í vissum skilningi miðstöð landsins. Þangað lá leið góðbænda, kaupmanna og embættismanna utan af landi, þegar þeir áttu leið í höfuðstaðinn. Hver gat sprangað um stræti og torg, án þess að hafa fengið klippingu og rakstur á rakarastofunni þeirri arna? Og svo geysaði stríð, sem ekki var aðeins háð í þessu undarlega útlandi, sem þorri Íslendinga þekkti aðeins af afspurn, heldur einnig á hafinu umhverfis landið. Já, og auðvitað komu sjóliðsforingjarnir á títt nefnda rakarastofu, þegar þeir áttu stund milli stríða og létu gera sig herramannslega til höfuðsins. Nema hvað!

Hann var ekki hvíthærður þá, hann Trausti Thorberg, heldur ungur maður með óræða framtíð, svo sem æskan jafnan er. Og skærin léku í höndum hans, meðan hár þess, sem sat í stólnum hverju sinni féll í gólfið og heimsmálin voru krufin til mergjar og þérað upp á kurteisra manna hátt þess tíma. Og gjarnan vék sápa undan rakhníf þar sem skeggbroddar voru fyrir.

En hann kunni fleira fyrir sér, þessi ungi rakari. Á kvöldin og fram á nótt, struku fimir fingur hans gítarstrengi á sviðinu á Hótel Borg og öðrum skemmtistöðum borgarinnar. Þar fór nefnilega músikant ofan í kaupin og spilaði með öllum helstu dægurlagahljómsveitum Reykjavíkur, var t.d. einn af fyrstu strákunum í KK - sextettinum, sem hóf að tendra fótmennt og hjörtu ungmenna í Mjólkurstöðinni árið 1947. Þar spilaði Trausti á rythmagítar. Það varð honum raunar ekki alveg að skaðlausu, því fyrir vikið varð hann að hætta í gítarnámi hjá Sigurði Briem. Sá eftirminnilegi gítarkennari eyddi ekki tíma sínum í nemendur, sem tóku nútímanum svo opnum örmum, að þeir spiluðu á rythmagítar.

En tíminn leið. Þær systur ástin, sorgin og gleðin knúðu dyra. Þeirra háttur í lífi Trausta Thorbergs skal ekki rakin hér. Þó verður ekki fram hjá því litið, að skömmu eftir stríð gekk hann að eiga lífsförunaut sinn, Dóru Sigfúsdóttur, röskleikasnót norðan frá Akureyri og settust þau að á fornum slóðum Trausta í gamla góða Vesturbænum. Þar bjuggu þau, þar til fyrir nokkrum árum, að leið þeirra hjóna lá í Kópavoginn. Þar gekk sól Dóru til viðar á síðasta ári. Vítt sér um vegu úr íbúð Trausta í Kópavoginum. En við reykvískir Miðbæjarmenn rekumst sjaldnar á Trausta Thorberg, en á árum áður. Það er auðvitað hans mál. Og þó, við söknum þess bjarma evrópskrar séntilmennsku, sem af honum stafar.

Nú jæja, látum það liggja milli hluta. Þó má ekki gleyma því, að snemma á sjöunda áratugnum lagði hann frá sér skærin, þegar þau hjónin opnuðu ljósmyndavöruverslunina Fótóhúsið árið 1963. það ráku þau árum saman, fyrst í Garðastræti, síðar í Bankastrætinu. Tæpast verður svo fjallað um Trausta Thorberg, að ekki sé minnst á tvo ríka þætti í lífi hans, sem báðir tengjast tónlistinni. Annað er söfnun hans á tónbókmenntum, hitt útsetningar hans á tónlist. Hvor tveggja ber vott meðfæddrar smekkvísi og eljusemin, sem hann hefur lagt í safnið er undraverð.

Söfnun tónbókmennta er ekkert áhlaupaverk. Eitt með öðru er það, að nótur eru oftast gefnar út á lélegan pappír. Svo er stöðugt verið að fletta heftunum við tónlistarflutning, oft án teljandi nærgætni. Til þess að ná einu nótnahefti, getur því þurft að sanka að sér slitrum héðan og þaðan, uns úr verður ein bók. Þetta er mikið eljuverk. Áratugum saman hefur Trausti lagt gjörva hönd, ekki aðeins á söfnun tónbókmennta, heldur og úrvinnslu safnsins, bókband o.s.frv. Frumverkin hefur hann látið færustu bókbindara landsins binda í skinn, afritin hefur hann bundið inn sjálfur, einnig í skinn. Þá má ekki gleyma því, að allt frá árinu 1945 hefur Trausti safnað öllum þeim íslensku tímaritum, þar sem fjallað er um tónlist. Það safn hans nær aftur til ársins 1912. Er óhætt að segja, að í safni Trausta sé að finna öll þau skrif, sem komið hafa út um tónlist á Íslandi. Meira að segja hefur tónlist VesturÍslandinga ekki farið framhjá vökulum augum safnarans. Allt er það safn bundið í vandað skinnband eins og nótnaheftin. Tónbókmenntasafn Trausta Thorbergs er menningarverðmæti, sem ekki má glatast. Um útsetningar Trausta verður ekki fjallað hér, til þess eru aðrir mér færari. Auk þess er þær að finna í þessu riti og því á færi tónelskra manna, að njóta þeirra.

Að lokum vil ég þakka fyrir, að hafa fengið tækifæri til að leggja þetta létta lóð á vogarskál þessarar útgáfu.

Pjetur Hafstein Lárusson